Meginmál

Mikil og sveiflukennd verðbólga hefur slæmar afleiðingar fyrir þjóðarbúskapinn. Hún getur dregið úr fjárfestingu og atvinnutækifærum og aukið á ójöfnuð í samfélaginu. Of lítil verðbólga getur að sama skapi verið skaðleg. Þar sem fyrirtæki eiga jafnan erfitt með að lækka nafnlaun minnkar geta fyrirtækja til að borga laun ef söluverð á vörum þeirra og þjónustu hækkar of lítið eða lækkar. Fyrirtæki yrðu því að ráða færri starfsmenn eða jafnvel grípa til uppsagna til að draga úr launakostnaði. Þannig veldur of lítil verðbólga því að sveiflur aukast frekar í atvinnustigi þegar efnahagsáföll dynja yfir sem er kostnaðarsamt fyrir samfélagið.

Markmið um 0% verðbólgu myndi auka hættuna á því að tímabilum verðhjöðnunar fjölgaði. Langvarandi verðhjöðnun myndi valda því að óverðtryggðar skuldir yrðu meiri að raunvirði og raungreiðslubyrði útistandandi lána ykist. Ef verð á vöru og þjónustu hefur lækkað en fjárhæð óverðtryggðra lána breytist ekki með verðlagi þyrfti fyrirtæki t.d. að framleiða og selja fleiri vörur og þjónustu til að geta endurgreitt lánið. Það þyrfti því í raun að greiða meira þrátt fyrir að krónutala lánsins hafi ekki breyst. Þetta getur valdið greiðsluerfiðleikum og þannig orsakað efnahagssamdrátt.

Heimili og fyrirtæki gætu jafnframt haldið að sér höndum með útgjaldaákvarðanir þar sem þau bíða eftir að verðlag lækki enn frekar. Fyrirtæki selja þá minna af vörum og þjónustu, bæði fyrirtæki í smásölu og framleiðslu, sem þýðir að tekjur þeirra og hagnaður minnkar. Fyrirtækin bregðast við með því að draga úr framleiðslu sinni og ráða færra fólk til starfa eða fækka starfsfólki. Atvinnuleysi verður þá meira en ella og tekjur þess fólks lækka sem veldur því að fólk kaupir enn minna af vörum og þjónustu o.s.frv. Þannig dýpkar efnahagssamdrátturinn enn meir. Sögulega séð hafa tímabil verðhjöðnunar skapað vandamál og erfitt getur reynst að eiga við vítahring verðhjöðnunar og efnahagssamdráttar.

Niðurstaðan er því að miða við að verðbólga sé lítil en nokkru yfir 0%. Í yfirlýsingu Seðlabanka Íslands og ríkisstjórnarinnar er þetta skilgreint sem 2½% verðbólga. Það er í takt við önnur þróuð ríki þar sem markmiðið er jafnan á bilinu 2-2½%.