Meginmál

Hið opinbera hefur áhrif á gang efnahagsmála eftir tveimur meginleiðum. Annars vegar í gegnum ríkisfjármál og lagasetningu Alþingis og hins vegar hefur ríkisvaldið útvistað því til Seðlabankans að sinna tilteknum þáttum peninga- og fjármála. Seðlabankinn hefur fjölmörg verkefni á sinni könnu, en í lögum um Seðlabanka Íslands er fjallað um þrjú meginverkefni hans. Þau eru að stuðla að stöðugu verðlagi, að tryggja fjármálastöðugleika og stuðla að traustri og öruggri fjármálastarfsemi.

Meginmarkmiðin

Með stöðugu verðlagi er stefnt að því að árleg verðbólga verði sem næst 2½% sem er verðbólgumarkmið sem Seðlabankinn og ríkisstjórn Íslands hafa sameinast um. Seðlabankinn notar fyrst og fremst vexti í viðskiptum við lánastofnanir til að hafa áhrif á verðbólguna.

Með fjármálastöðugleika er átt við að stuðla að stöðugu, öruggu og virku fjármálakerfi. Fjármálakerfið þarf að geta staðist ýmis áföll og sveiflur. Tryggja þarf að innlánsstofnanir geti tekið við sparnaði fólks og fyrirtækja og ávaxtað hann og enn fremur að innlánsstofnanir geti miðlað lánsfé til einstaklinga og fyrirtækja. Enn fremur þarf að tryggja að greiðslumiðlun í landinu og við útlönd sé virk og örugg. Heilbrigt fjármálakerfi er nauðsynleg forsenda stöðugleika og hagvaxtar og virkrar stefnu í peningamálum sem stuðlar að stöðugu verðlagi. Til að fylgjast með heilbrigði fjármálakerfisins beitir Seðlabankinn meðal annars álagsprófum og sviðsmyndagreiningum á helstu áhættuþætti. Til að stuðla að fjármálastöðugleika setur Seðlabankinn ýmsar reglur um starfsemi fjármálafyrirtækja til að vinna gegn því að áhætta myndist í rekstri þeirra líkt og gerðist meðal annars árið 2008.

Seðlabankinn á að stuðla að traustri og öruggri fjármálastarfsemi. Þess vegna fylgist bankinn með því að starfsemi ýmissa aðila í fjármálakerfinu, sem kallaðir eru eftirlitsskyldir aðilar, sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli og sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Þannig hefur Seðlabankinn meðal annars eftirlit með viðskiptaháttum gagnvart neytendum og öðrum viðskiptavinum fjármálaþjónustu og sinnir ýmissi upplýsinga- og leiðbeiningarþjónustu.

Ýmis tengd verkefni

Seðlabankinn sinnir ýmsum öðrum tengdum verkefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka. Þar á meðal er að varðveita gjaldeyrisforða. Þá skal Seðlabankinn stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, enda telji hann það ekki ganga gegn markmiðum bankans.