Markmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi. Þar sem Ísland er lítið og opið hagkerfi með sjálfstæðan gjaldmiðil hefur gengi krónu mikil áhrif á innlenda verðlagsþróun, fjármálakerfið og efnahagsstarfsemi í landinu almennt. Gengisþróun krónunnar hefur þar af leiðandi áhrif á það hversu vel Seðlabankanum tekst til við að uppfylla lögbundin markmið sín. Þess vegna teljast gjaldeyrisviðskipti til stjórntækja Seðlabankans.
Seðlabanki Íslands er aðili að millibankamarkaði með gjaldeyri. Seðlabankinn er þó ekki viðskiptavaki, heldur sinnir hann eftirlitshlutverki, setur reglur á markaðinum og getur átt þar viðskipti telji hann það nauðsynlegt til að stuðla að markmiðum sínum. Seðlabankanum er ekki skylt að eiga gjaldeyrisviðskipti við viðskiptavaka þótt eftir því sé leitað, en viðskiptavaka er hins vegar skylt að eiga gjaldeyrisviðskipti við Seðlabankann ef honum þykir þörf á.
Þegar Seðlabanki Íslands kaupir eða selur gjaldeyri fyrir krónur á millibankamarkaði með gjaldeyri til þess að hafa áhrif á gengi krónunnar eru viðskiptin kölluð inngrip á gjaldeyrismarkaði. Markmið þeirra er að draga úr óhóflegum sveiflum í gengi til krónunnar, hvort sem er til hækkunar eða lækkunar, bæði til skamms og meðallangs tíma, eftir því sem bankinn telur tilefni til. Endanlegur tilgangur gjaldeyrisinngripa er að stuðla að því að Seðlabankinn nái markmiðum sínum um stöðugt verðlag og fjármálastöðugleika.