Bankar gegna lykilhlutverki í hverju samfélagi. Þeir miðla fjármunum frá þeim sem spara peninga til þeirra sem vilja taka lán, hvort sem er til að fjárfesta í húsnæði, kaupa bíl eða stofna fyrirtæki. Þannig auðvelda bankar fjárfestingu og uppbyggingu í samfélaginu. Þeir eru einnig milliliður í alls kyns viðskiptum, þ.e. milli kaupenda og seljenda vöru og þjónustu með því að flytja peninga af reikningum þeirra sem kaupa til þeirra sem selja, t.d. með greiðslukortum eða viðskiptum á netinu. Þannig eru bankar lykilaðilar í greiðslumiðlun í landinu, hvort sem fólk notar kort, heimabanka eða seðla og mynt.
Hvernig stuðlum við að stöðugleika í fjármálakerfinu?
Um starfsemi fjármálafyrirtækja gilda strangar reglur sem Seðlabanki Íslands hefur eftirlit með. Þannig drögum við úr líkum á því að bankar og sparisjóðir lendi í verulegum erfiðleikum og geti ekki sinnt því hlutverki að miðla sparnaði og lánum. Eftir fjármálaáfallið 2008 voru ýmsar reglur hertar og vinnubrögð bætt í því skyni að koma í veg fyrir annað eins ástand og þá skapaðist. Seðlabankinn beitir ýmsum úrræðum líkt og að gera álagspróf á stóru bönkunum árlega en í því felst að Seðlabankinn safnar mikilvægum upplýsingum frá bönkunum og getur þannig metið hvort þeir uppfylli þau skilyrði sem þeim eru sett. Einnig þurfa bankarnir að uppfylla sérstakar reglur sem stuðla að stöðugleika í fjármálakerfinu. Þessar reglur eru gjarnan kallaðar þjóðhagsvarúðarreglur en þær fjalla meðal annars um hversu mikið eigið fé bankarnir þurfa að eiga.
En hvað verður um peningana mína ef svo færi að bankar eða sparisjóðir yrðu ógjaldfærir (færu „á hausinn“)?
Ef banki eða sparisjóður verður ógjaldfær (fer „á hausinn“) getur fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands afturkallað starfsleyfi viðkomandi. Við slíkar aðstæður eru innstæður þeirra sem eiga peninga á reikningum hjá bankanum eða sparisjóðnum tryggðir upp að tilteknu marki. Tryggingarsjóður vegna fjármálafyrirtækja sér um að greiða út innstæður sem eru tryggðar hjá bönkum og sparisjóðum en sú fjár hæð nemur allt að 100.000 evrum.
Ef útlit er fyrir að bankar eða fjármálastofnanir verði ógjaldfærar hefur Seðlabankinn heimild til að taka viðkomandi fyrirtæki í svokallaða skilameðferð. Markmið skilameðferðar er að varðveita fjármálastöðugleika, þ.m.t. að tryggja áframhald nauðsynlegrar starfsemi fjármálafyrirtækja og forðast veruleg, neikvæð áhrif á fjármálakerfið. Jafnframt er það markmið laganna að lágmarka hættu á að veita þurfi sérstakan opinberan fjárstuðning til fjármálafyrirtækja, auk þess að vernda innstæðueigendur, fjárfesta og eignir viðskiptavina þeirra.