Meginmál

Verðbólgu má skilgreina sem stöðuga hækkun verðlags yfir ákveðinn tíma. Þegar talað er um verðlag er átt við meðalverð vöru og þjónustu á markaði, þ.e. á eins konar neyslukörfu sem Hagstofa Íslands skilgreinir fyrir heimili, ekki verð á einstakri vöru eða tegund þjónustu. Með stöðugri hækkun verðlags er átt við röð hækkana yfir nokkuð langt tímabil, yfirleitt tólf mánuði, en ekki t.d. hækkun í einum mánuði. Verðbólga felur í sér að verðgildi peninga minnkar, þ.e.a.s. minna magn vöru og þjónustu fæst fyrir hverja krónu.

Hvað er verðbólgumarkmið?

Eitt af meginmarkmiðum Seðlabankans er stöðugt verðlag, skilgreint sem hækkun vísitölu neysluverðs um 2½% á tólf mánuðum. Það er verðbólgumarkmiðið.

Hvernig er verðbólgan mæld?

Verðbólga hér á landi er mæld þannig að starfsfólk Hagstofu Íslands kannar verð á tilteknum vörum og tiltekinni þjónustu mánaðarlega. Val á vörum og þjónustu í þeim tilgangi byggist á könnunum á neyslu heimila i landinu. Verð slíkrar vöru- og neyslukörfu er sett á vísitölu, þ.e. vísitölu neysluverðs, sem tekur þá sömu hlutfallsbreytingum mánaðarlega og verðið á vöru- og neyslukörfunni. Prósentubreyting vísitölunnar yfir ákveðið tímabil, að jafnaði tólf mánuði, er síðan notuð sem mælikvarði á verðbólgu.

Gæti verðbólgan verið of lítil?

Já. Stefnt er að því að verðbólgan verði sem næst tveimur og hálfu prósenti. Ef verðbólgan er minni, t.d. nálægt núlli eða jafnvel neikvæð (þ.e. verðhjöðnun), gæti það bent til þess að of mikill hægagangur sé á vissum sviðum atvinnulífsins með tilheyrandi auknu atvinnuleysi og þá gæti lausnin verið að lækka vextina, m.a. til að fá einstaklinga og fyrirtæki til að neyta og fjárfesta, t.d. með því að taka lán til framkvæmda sem örvar atvinnulífið.

Af hverju er verðbólga slæm?

Of mikil verðbólga er slæm meðal annars vegna þess að hún dregur úr kaupmætti peninga; fólk fær minna fyrir hverja krónu ef verð hækkar. Þá getur mikil og sveiflukennd verðbólga gert ýmsar áætlanir erfiðari, t.d. um fjárfestingu, sem gæti leitt til minni atvinnu síðar meir. Í vissum tilvikum getur verðbólga einnig fært fé á milli kynslóða og hópa, eins og gerðist hér á landi í verulegum mæli á síðari hluta síðustu aldar.

Verðlagsþróun, 12 mánaða verðbólga (%)